Afmörkuð fælni
Afmörkuð fælni er ofsalegur ótti við tiltekin fyrirbæri eða aðstæður eins og dýr, lokuð rými eða sprautur. Fólk finnur fyrir skyndilegri skelfingu þegar það mætir því sem það óttast þótt það geri sér grein fyrir að óttinn sé meiri en eðlilegt er. Fólk sniðgengur þessar aðstæður, flýr af hólmi eða þraukar þrátt fyrir mikinn kvíða. Sá sem fælist geitunga gæti til dæmis hent frá sér öllu og tekið til fótanna þegar hann verður var við geitung, stirðnað upp eða forðast alfarið að dvelja utandyra þar sem geitungar gætu verið.
Afmörkuð fælni er líklega algengasta kvíðaröskunin, og háir í kringum 12% fólks. Þetta er jafnframt sú kvíðaröskun sem fæstir leita sér aðstoðar við, ef til vill vegna þess að mörgum tekst að hagræða lífi sínu þannig að þeir séu sjaldan útsettir fyrir það sem þeir óttast. Það er synd hve fáir leita sér aðstoðar þar sem meðferðarárangur við afmarkaðri fælni er sérlega góður og má oft ná tökum á vandanum á örfáum klukkustundum. Afmörkuð fælni er almennt algengari meðal kvenna en karla, þó er munurinn mismikill eftir tegund fælni. Minnstur er munurinn milli kynja þegar kemur að lofthræðslu og blóð- og sprautufælni. Dýrafælni og blóðfælni hefjast oftast í æsku en aðstæðubundin fælni hefst oft ekki fyrr en seint á unglingsárum eða snemma á fullorðinsárum.
Til eru nokkrir flokkar afmarkaðrar fælni, sjá upptalningu hér að neðan. Blóð- og sprautufælni sker sig frá öðrum fælnitegundum að því leyti að þar gætir tilhneigingar til að falla í yfirlið eða komast nærri því að falla í yfirlið. Blóð- og sprautufælni er einnig ólík öðrum tegundum fælni sökum þess að slík fælni hefur mesta tilheigingu til að ganga í erfðir. Afmarkaða fælni má hins vegar almennt aðeins skýra að þriðja hluta til erfða. Í flestum tilfellum hefur fólk lært að óttast tilteknar aðstæður. Fólk kann að hafa orðið fyrir slæmri reynslu af því fyrirbæri sem um ræðir, orðið vitni að slæmri reynslu einhvers annars eða óttinn lærst gegnum varnaðarorð annarra.
Flokkar afmarkaðrar fælni
Afmörkuð fælni skiptist í fjóra lykilflokka eins og sjá má hér að neðan. Flestir sem glíma við afmarkaða fælni fælast fleiri en eitt fyrirbæri, oftast innan sama flokks. Jafnframt eru aðrar kvíðaraskanir algengar í þessum hópi.
Dýrafælni: Hundar, kettir, mýs, fuglar, snákar, skordýr o.fl.
Náttúru-, umhverfisfælni: Hæðir, myrkur, vatn, þrumuveður o.s.frv.
Aðstæðubundin fælni: Keyra (t.d. í vondu veðri), ferðast með lest, rútu eða flugvél, lokuð eða lítil rými eins og lyftur, lítil glugglaus herbergi, göng, fjölmennir staðir o.fl.
Blóð-, sprautu-, slysafælni: Sjá blóð, horfa á skurðaðgerð, fá sprautu, fara til læknis, tannlæknis, á spítala o.fl.
Önnur fælni: Allar aðrar tegundir fælni, til dæmis fælni tengd því að kasta upp, kafna, ákveðinni tónlist, nýjum mat, blöðrum, snjó eða skýjum
Hugræn atferlismeðferð við afmarkaðri fælni
Hægt er að fá meðferð við helstu tegundum afmarkaðrar fælni og sú meðferð sem almennt er boðið upp á er tegund af hugrænni atferlismeðferð sem kallast ,,ones session treatment” þegar hægt er að koma því við en þetta meðferðarform hefur gefist afar vel til þess að ná tökum á margvíslegri fælni en langflestir ná tökum á sínum ótta með þessari leið.
Um er að ræða meðferðarformat sem skiptist í þrjá fasa. Fyrst er greining, kortlagning og undirbúningur þar sem verið er að skoða helstu hugmyndir sem viðkomandi hefur um dýrið eða aðstæðurnar, helstu leiðir sem viðkomandi hefur beitt til að tryggja öryggi sitt, forðun og aðrar öryggisráðstafanir. Einnig er farið ítarlega í hvernig vandi af þessum toga, hvernig kvíðaviðbragðið hagar sér og hvað þurfi að gera í meðferðinni til þess að sigrast á fælninni. Þessi undirbúningur tekur 1-2 meðferðartíma. Í næsta fasa er einn langur meðferðartími þar sem markvisst er verið að stíga þau skref sem þarf að stíga til að sigrast á fælninni og varir þessi meðferðartími í 2,5 til 3 klst. Í loka fasanum er verið að skipuleggja æfingar sem miða að því að halda þeim breytingum sem hafa náðst í sessi og tímasetja eftirfylgd.
Ekki er unnt að mehöndla alla tegundir fælni allan ársins hring. Fælni við geitunga er dæmi um fælni þar sem erfitt er að koma við meðferð á vetrartíma og mælum við með að fólk sæki sér meðferð vegna þessa á sumarmánuðum.