Almenn kvíðaröskun

  • Almenn kvíðaröskun einkennist af þrálátum áhyggjum af ýmsum málefnum sem eru fólki mikilvæg eins og fjárhag, framtíð, samskiptum og velferð ættingja. Þetta eru áhyggjur af ýmsu sem gæti átt sér stað í framtíðinni eða minniháttar atriðum og erfiðleikum með að taka ákvarðanir, t.d. hvaða gallabuxur eigi að kaupa. Með áhyggjum er átt við röð neikvæðra hugsana, efasemda eða mynda í huganum sem oft snúast um það sem gæti farið úrskeiðis í framtíðinni. Fólk á erfitt með að láta af þessum áhyggjum og finnur fyrir einkennum eins og eirðarleysi, vöðvaspennu, pirringi, svefntruflunum og þreytu. Áhyggjurnar geta ýmist einskorðast við tilteknar áhyggjulotur þar sem fólk er í þungum þönkum svo mínútum eða klukkustundum skiptir. Oft eru áhyggjurnar meiri þegar fólk fær næði til að hugsa, eins og þegar fólk er að reyna að slaka á eða sofna. Áhyggjurnar vinda gjarnan upp á sig þannig að hver hugsun sem skýtur upp kollinum vekur aðra enn ógnvænlegri og svo koll af kolli.

    Um það bil 4% fólks mælist með almenna kvíðaröskun yfir árs tímabil og er vandinn helmingi algengari meðal kvenna. Þessi tala kann að virðast lág en engu að síður má áætla að þrettán þúsund Íslendingar séu haldnir vandanum á hverju tíma. Flestir í þessum hópi greina frá því að hafa alla tíð verið áhyggjufullir, þetta ástand sé mjög einkennandi fyrir þá. Margir í þessum hópi hafa litla trú á sér og efasemdir um að þeir geti náð tökum á vandanum.

    Því miður er almenn kvíðaröskun talsvert vangreind enda leita flestir sér aðstoðar vegna líkamlegra óþæginda sem vandanum fylgja, svo sem vöðvabólgu, þreytu og svefntruflunum. Fólk lítur ekki á áhyggjur sem einkenni sem krefjist meðhöndlunar. Þegar fólk kemur til sálfræðinga hafa einkenni annarra raskana oft bæst við, sem meira ber á, svo sem depurð, streita eða kvíðaköst. Í kringum helmingur þeirra sem haldnir eru almennri kvíðaröskun eru jafnframt haldnir þunglyndi og/eða annarri kvíðaröskun svo sem félagsfælni eða ofsakvíða.

    Hugræn atferlismeðferð við almennri kvíðaröskun

    Almenn kvíðaröskun þótti löngum erfið viðureignar, jafnvel með hugrænni atferlismeðferð sem almennt skilar góðum meðferðarárangri við kvíðavandamálum. Ekki gekk nægjanlega vel að kenna fólki að stöðva áhyggjur og hugsa uppbyggilega. Fólk var ekki fyrr búið að kveða niður áhyggjur af einu málefni fyrr en þær næstu létu á sér kræla. Nýjar rannsóknir innan hugrænnar atferlismeðferðar á því hvað knýi almenna kvíðaröskun gefa þó tilefni til bjartsýni. Þar ber hæst rannsóknir Melisu Robichaud og Michel Dugas frá Kanada, en Melisa hélt nýverið námskeið fyrir íslenska sálfræðinga um meðhöndlun vandans.  Melisa handleiddi sálfræðinga Kvíðameðferðarstöðvarinnar um langt skeið. Rannsóknir Melisu og Michel benda til að óhóflegar áhyggjur sé tilraun til að draga úr óvissu. Þeir sem hafi miklar áhyggjur hafi í grunninn lágt óvissuþol, það er að segja neikvæðar hugmyndir um óvissu.  Nánar tiltekið að þeir þoli ekki óvissu, að hún hafi eitthvað slæmt í för með sér sem þeir muni ekki ráða við.

    Áhyggjur eru því leið til að reyna að sjá fyrir, afstýra eða búa sig undir það slæma sem geti mögulega gerst. Ekki verður hins vegar komið í veg fyrir erfiðleika með áhyggjum einum og sér og óvissunni sem lífinu fylgir verður seint eytt. Öllu verra er, að áhyggjur auka á óvissutilfinningu fólks. Því fleiri slæmar uppákomur sem fólk sér fyrir sér, því fleiri óvissuþætti verður fólk meðvitað um. Þeir sem hafa lítið óvissuþol reyna svo að lágmarka óvissuna í lífi sínu með ýmsu móti, til dæmis með því að skipuleggja sig út í ystu æsar, hafa stjórn á aðstæðum, ganga úr skugga um að allt sé í lagi, halda rútínu og forðast óvæntar uppákomur. Með þessu draga þeir enn úr óvissuþoli sínu og komast seint að raun um að þeir geti tekið á málum jafnóðum. Meðferðin felst því í hinu gagnstæða, að aðstoða fólk fremur við að sækja  í tvíræðar og óutreiknanlegar aðstæður eftir því sem það treystir sér til. Þannig kemst fólk að raun um að það ræður við meira en það heldur, þó eitthvað komi stundum upp á. Við það dregur úr kvíða og áhyggjum, svo ekki sé minnst á hvað lífið geti orðið skemmtilegra með,,dash” af aukinni óvissu! Með því að bjóða óvissunni heim eykst öryggi fólks og trú á að það geti tekið því sem að höndum ber.

    Við Kvíðameðferðarstöðina er unnið í samræmi við þessar nýjustu áherslur við meðhöndlun vandans. Fólk fær aðstoð við að kortleggja áhyggjur sínar, leysa aðsteðjandi vandamál (þær áhyggjur sem snúa að að raunverulegum vandamálum) og auka óvissuþol þannig að minni þörf gerist fyrir áhyggjur.