Félagskvíði

  • Félagsfælni lýsir sér í þrálátum kvíða í samskiptum og við félagslegar aðstæður þar sem fólk óttast að koma illa fyrir og aðrir myndi sér þá neikvæða skoðun á því. Fólk forðast þessar aðstæður eða þraukar í þeim þrátt fyrir mikinn kvíða. Dæmi um slíkar aðstæður getur verið að tjá sig svo aðrir sjái eða heyri til, mæta í veislur og blanda geði við aðra, kynnast nýju fólki, tala við yfirmenn eða halda erindi. Ýmist vekja flestar félagslegar aðstæður kvíða eða aðeins afmarkaðar aðstæður eins og einvörðungu þegar verið er að spila á tónleikum eða halda fyrirlestra. Vandinn þarf að há fólki verulega í daglegu lífi til þess að talað sé um vandann sem félagsfælni. Félagsfælni er algengasta kvíðaröskunin og glímir um 12% fólks við þennan vanda. Þau líkamlegu einkenni sem fólk óttast helst að séu öðrum sýnileg eru roði, sviti eða skjálfti. Hugurinn getur tæmst og fólki finnst stundum erfitt að einbeita sér. Tilfinningaleg einkenni félagsfælni eru m.a. kvíði, óöryggi, skömm, pirringur og höfnunartilfinning. Fólk verður óþægilega sjálfmeðvitað og finnur gjarnan til vanmáttar síns. Félagsfælni getur leitt til þunglyndis og misnotkunar á vímuefnum.

    Hugræn atferlismeðferð við félagsfælni

    Samkvæmt hugrænu líkani af félagsfælni á hugarfar, athygli og öryggisráðstafanir þátt í að viðhalda vandanum.

    Þáttur hugarfars

    Félagsfælnir hafa oft neikvæðar hugmyndir um sig (t.d. ég er öðru vísi, óaðlaðandi, vitlaus) og upplifa aðra sem gagnrýna í garð þeirra. Þeir gera miklar kröfur til sín í samskiptum og fá mikið af neikvæðum hugsunum innan um aðra (t.d. mér dettur ekkert í hug til að segja, það hljóta allir að sjá hvað ég roðna). Þegar þeir koma úr aðstæðunum einblína þeir oft á það sem betur hefði mátt fara í frammistöðu þeirra. Þessar hugsanir auka allar á félagskvíðann.

    Þáttur sjálfmiðaðrar athygli

    Þegar félagsfælnir verða óöruggir beinist athygli þeirra oft að kvíðaeinkennunum sem gerir það að verkum að þeir finna meira fyrir þeim (t.d. getur andlitsroði manneskju aukist ef hún beinir athygli að honum). Þá tekur fólk gjarnan líðan sína til marks um hvernig það komi öðrum fyrir sjónir (t.d. ef mér líður eins og asna hlýt ég að líta út eins og asni). Þegar athyglin beinist inn á við (t.d. að eigin líðan og framkomu) tekur fólk verr eftir því hver raunveruleg viðbrögð annarra eru (það gæti t.d. misst af jákvæðum viðbrögðum eins og brosi) og tekur verr eftir því sem er sagt í kringum það. Þetta gerir það að verkum að erfiðara er að koma inn í samræður.

    Þáttur öryggisráðstafana

    Öryggisráðstafanir er allt það sem félagsfælnir gera til að verja sig áður en þeir fara í félagslegar aðstæður (t.d. taka inn róandi töflu, undirbúa samræður í huganum eða klæðast lítt áberandi fötum) og meðan á félagslegum aðstæðum stendur (t.d. segja fátt, sitja úti í horni, forðast augnsamband). Öryggisráðstafanir draga úr kvíða til skamms tíma en aftra því að fólk komist að því að þeir hefðu ráðið við aðstæður og að ekkert slæmt hefði gerst.

    Hvernig er félagsfælni meðhöndluð við Kvíðameðferðarstöðina?

    Við Kvíðameðferðarstöðina er félagsfælni meðhöndluð með hugrænni atferlismeðferð ýmist í einstaklingsmeðferð eða í hópmeðferð eftir því sem við á. Í meðferð félagsfælni er markvisst gripið inn þá þætti sem viðhalda vandanum með það fyrir augum að draga úr kvíða og forðun. Hópmeðferð Kvíðameðferðarstöðvarinnnar við félagsfælni hefur reynst mjög og hafa nokkur hundruð manns sótt meðferðina frá því að við fórum að bjóða upp á þetta úrræði. Árangur af hopmeðferðinni hefur verið tekin saman reglulega og niðurstöður birtar. Kostir hópmeðferðar eru margvíslegar, til að mynda það eitt að mæta í hópinn vinnur gegn félagskvíðanum, flestum finnst hjálplegt að hitta aðra sem eru að glíma við sama vanda, þátttakendur geta lært hver af öðrum og er einstakt tækifæri til æfinga. Flestum finnst, eðli málsins samkvæmt, kvíðvænlegt að mæta í hóp til að byrja með en ef fólk þraukar í nokkur skipti fer kvíðinn smám saman að gefa sig. Hægt er að nálgast nánari upplýsingar um hópmeðferðina hér á síðunni undir hlekknum hópar og námskeið.