Handleiðsla
Handleiðsla hjá reyndum meðferðaraðilum með sérþekkingu á sínu sviði er mikilvægur hluti af starfi og starfsþróun sálfræðinga og annarra fagaðila sem sinna meðferðarstarfi. Í handleiðslu fær viðkomandi leiðsögn, endurgjöf og stuðning frá reyndum meðferðaraðila með það að marki að efla faglega hæfni, dýpka skilning og bæta færni í meðferðarvinnu og stuðla að persónulegri og faglegri þróun.
Í handleiðslu er skapað öruggt rými til að ræða mál tengd starfinu og meðferðarvinnu og til að vinna með áskoranir sem geta fylgt sálfræðistörfum. Með reglulegri handleiðslu geta sálfræðingar og annað fagfólk haldið áfram að þroskast í starfi, viðhaldið fagmennsku og aukið líkur á árangursríkri meðferð skjólstæðinga og vellíðan í starfi.
Hjá Kvíðameðferðarstöðinni er boðið upp á handleiðslu fyrir sálfræðinga og annað fagfólk hjá sérfræðingum í klínískri sálfræði sem hafa umfangsmikla reynslu af meðferð kvíðaraskana. Við leggjum ríka áherslu á að handleiðslan sé bæði fagleg og styðjandi þannig að fagaðilar geti vaxið og lært í krefjandi starfi.