Hópmeðferð og námskeið
Við Kvíðameðferðarstöðina eru ýmsar hópmeðferðir og námskeið í boði. Hóparnir og námskeiðin byggja á hugrænni atferlismeðferð sem er meðferðarform sem gefist hefur vel við ýmsum vanda, þ.m.t. í meðferð kvíðaraskana. Veitt er fræðsla um kvíða og viðhaldandi þætti, gagnlegar aðferðir til að rjúfa vítahringi kenndar og æfingar framkvæmdar bæði í tímum og á milli tíma í þeim tilgangi að ná tökum á vandanum. Gott er að hafa í huga að fólk þarf ekki að tjá sig meira en það kýs í tímum en góð ástundun stuðlar að auknum meðferðarárangri.
Hópmeðferð hefur ýmsa kosti í för með sér. Hún ber álíka góðan árangur og einstaklingsmeðferð og er hlutfallslega ódýrari. Ríkur þáttur meðferðar er að veita fræðslu um kvíðaviðbragðið og viðhaldandi þætti kvíða og er sérlega þægilegt að koma slíkri fræðslu við í hóp. Meðferðarvinnan verður gjarnan markvissari í hóp þar sem verið er að fylgja ákveðnu hópmeðferðarplani. Auk þess finnst mörgum gott og gagnlegt að hitta aðra sem eru að glíma við sama vanda og eru að stíga sömu skref í átt að því að ná tökum á vandanum. Þátttakendur læra hverjir af öðrum og styðja hvern annan í þessari vinnu. Hópmeðferð er oft skemmtileg þótt hún geti verið krefjandi og stundum getur reynst auðveldara að koma æfingum við í hóp en í einstaklingsviðtölum.


