Ofsakvíði

  • Það er óþægilegt að verða mjög hræddur eða felmtri sleginn. Í vissum aðstæðum er það eðlilegt, ekki síst þegar fólk er í hættu statt. Sumir fara aftur á móti að fá endurtekin og ofsafengin óttaköst sem ná námarki sínu innan nokkurra mínútna, þar sem fólk finnur fyrir sterkum líkamlegum einkennum að tilefnislausu. Fólk verður skiljanlega mjög hrætt við þessa upplifun og hefur áhyggjur af að eitthvað alvarlegt sé að. Það fer að óttast frekari köst og jafnvel forðast aðstæður eða athafnir þar sem frekari köst gætu gert vart við sig (slík forðun nefnist víðáttufælni). Þessi vandi nefnist ofsakvíði, öðru nafni felmtursröskun. Í þessum köstum gera a.m.k. fjögur af eftirfarandi einkennum vart við sig: Hjartsláttur, svimi, sviti, skjálfti, köfnunartilfinning, andnauð, óraunveruleikatilfinning og ótti við að eitthvað hræðilegt sé að gerast eins og yfirlið, köfnun, hjartaáfall, geðveiki eða dauði. Allt að 10% fólks fær eitt eða fleiri kvíðaköst á ævinni en um það bil 3,5 % fólks þróar með sér ofsakvíða, það er að segja óttann við frekari kvíðaköst (eiginlega „ótta við óttann”).

    Hugræn atferlismeðferð við ofsakvíða

    Hugræn atferlismeðferð ber sérlega góðan árangur við ofsakvíða en samkvæmt hugrænni kenningu stafar vandinn af því að meinlaus líkamleg einkenni eru túlkuð á þann veg að eitthvað alvarlegt sé að. Samskil verður milli neikvæðra hugsana og líkamlegra einkenna þannig að neikvæðar hugsanir, t.d. ,,ég er að fá hjartaáfall” espa upp líkamlegu einkennin. Þá fer fólk að fylgjast sérstaklega með líkamanum og taka eftir öllum merkjum um að kvíðakast gæti verið á leiðinni. Dæmi um einkenni sem fólk gæti farið að hlusta eftir eru eilitlar breytingar á hjartslætti. Við það að hlusta eftir slíkum breytingum, sem eilíflega eiga sér stað í líkamanum, fer fólk að taka betur eftir þeim og túlka á versta veg, sem hrint getur af stað kvíðakasti.
    Þess ber að geta að ofangreind einkenni eru eðlilegur hluti af meðfæddu neyðarviðbragði líkamans sem fer í gang þegar við metum að við séum í hættu stödd (stundum er nóg að við hugsum að eitthvað slæmt geti gerst eins og að við gætum fallið á prófi). Þetta viðbragð hefur stuðlað að afkomu mannsins í áranna rás, gert honum kleift að berjast fyrir lífi sínu eða taka til fótanna þegar þörf var á. Ofangreind einkenni leiða hvorki til yfirliðs (þar sem blóðþrýstingur hækkar í kvíðakasti en fellur við yfirlið), dauða (þá væri mannveran löngu útdauð) né geðveiki (sturlunareinkenni eru af öðrum toga en kvíðaeinkenni).