Þráhyggja og árátta

  • Þráhyggja og árátta er kvíðaröskun þar sem fólk fær áleitnar hugsanir, hvatir eða ímyndir sem valda kvíða. Það finnur sig knúið til að endurtaka tilteknar athafnir í því augnamiði að draga úr kvíðanum og afstýra mögulegri hættu. Vandinn veldur gríðarlegri þjáningu og getur haldið fólki í greipum óttans svo áratugum skiptir. Fólk upplifir sig afar eitt í þessari baráttu og leitar seint aðstoðar. Fólk skammast sín oft fyrir vandann og óttast að vera álitið brjálað greini það frá því sem er að hrjá það. Í raun er þetta hins vegar kvíðavandamál sem hægt er að komast yfir. Áætla má að 2-3% fólks glími við vandann einhvern tímann á ævinni, en þetta samsvarar tæplega 10.000 Íslendingum.

    Eins og nafnið gefur til kynna falla einkenni vandans í tvo lykilflokka:

    Þráhyggja vísar til óboðinna og áleitinna hugsana, hvata eða ímynda, sem algengast er að snúist um smit (t.d. að smitast við það að snerta peninga), efasemdir (t.d. hvort slökkt hafi verið á eldavélinni), hryllilegar eða ofbeldisfullar hvatir (eins og að skaða barnið sitt) eða óboðnar kynferðislegar hugsanir og ímyndir. Hugsanir um að gera eitthvað slæmt valda fólki sérstaklega miklu hugarangri. Þessar hugsanir, sem nefndar hafa verið þráhugsanir,  eru frábrugðnar öðrum hugsunum að því leyti að þær eru í ósamræmi við skoðanir okkar og sjálfsmynd (eins og dýravinur sem sér sig fyrir sér misþyrma dýrum), þótt sumir með þráhyggju og áráttu óttist raunar að þessar hugsanir endurspegli innræti þeirra. Athyglisvert er að allir fá óboðnar hugsanir sem þessar, en þeir sem haldnir eru þráhyggju- og áráttu telja það óeðlilegt að fá slíkar hugsanir og að það kunni að leiða eitthvað slæmt af sér, til dæmis að þeir láti af því verða sem þeir hugsa. Þeir veita því þessum hugsunum mun meiri athygli en aðrir og leggja neikvæðari merkingu í þær.

    Árátta lýsir sér aftur á móti í síendurteknu atferli eins og að þvo sér um hendurnar, tékka á, eða raða hlutum. Hún getur einnig verið framkvæmd í huganum, t.d. með því að telja, endurtaka orð eða biðjast fyrir. Áráttan dregur úr kvíða og öðrum óþægilegum tilfinningum til skamms tíma og er oftast ætlað að afstýra því að það sem fólk óttast verði að veruleika, eins konar öryggisráðstöfun. Ef þú hefur til dæmis miklar áhyggjur af því að bera smit í þig eða einhvern annan, hljómar skynsamlega að þvo þér ítrekað til að afstýra smiti. Fólk gerir sér grein fyrir að þráhyggjan eða áráttan er meiri en eðlilegt er, skammast sín oft og á því oft erfitt með að leita sér aðstoðar.

    Þráhyggja- og árátta á sér margar birtingarmyndir þótt í raun sé vandinn sá sami í grunninn og hagi sér með svipuðum hætti. Ein birtingarmynd lýsir sér í endalausu tékki, til dæmis að athuga ítrekað hvort slökkt hafi verið á eldavélinni eða hvort keyrt hafi verið á einhvern á leiðinni í vinnuna. Hér fær fólk miklar efasemdir um að tilteknir hlutir séu í lagi, og gá endurtekið að hlutum þótt þeir hafi verið í lagi við fyrstu athugun. Þetta leiðir gjarnan til þess að fólk verður seint fyrir þar sem það á að vera mætt. Önnur birtingarmynd vandans lýsir sér í þvottaáráttu en hér hefur fólk þrálátar áhyggjur af því að hversdagslegir hlutir geti verið mengaðir. Fólk getur fest hér í margra tíma þvotti hafi það komist í tæri við eitthvað sem það upplifir mengað og gengur langt í að forðast mögulega smitvalda. Grufl er annar lykilflokkurinn en þar fer fólk endalaust að velta tilteknum þráhugsunum fyrir sér, í tilraun til að draga úr óþægindunum og finna út úr hlutum. Til dæmis gæti stúlka skyndilega séð nakta stúlku fyrir sér þegar hún stundar kynlíf með kærasta sínum. Hún gæti þá farið að velta því endalaust fyrir sér hvort hún væri samkynhneigð og stundum leiðist fólk út í að ,,eyða út” hugsuninni með annarri hugsun eða reyna að hrekja hana. Hér festist fólk í efasemdunum og getur ekki haldið áfram fyrr en því tekst að greiða úr áhyggjunum. Það er ekki tilviljunarkennt hvaða hugsanir fólk fer að hafa áhyggjur af, en það er iðulega það sem fólk óttast mest, eins og ástríkur faðir sem óttast mest af öllu að misnota dóttur sína. Að sama skapi kann hinn strangtrúaði að fá miklar áhyggjur af hugsunum með kynferðislegu innihaldi.