Víðáttufælni

  • Víðáttufælni er er mikill ótti við aðstæður þar sem erfitt eða vandræðalegt væri að komast í burtu eða að fá hjálp. Dæmi um slíkar aðstæður getur verið að ferðast með strætó, rútu, lest eða flugi, að vera í opnum rýmum eins og á bílastæðum, í verlunarmiðstöðvum eða að fara yfir brýr, að vera í lokuðum rýmum eins og í bíó eða leikhússölum, lyftum eða litlum búðum, að standa í biðröð, vera í margmenni eða að fara einn að heiman. Þegar fólk stendur frammi þessum aðstæðum finnur það fyrir miklum óþægindum svo sem örum hjartslætti, svima, svita, skjálfta og meltingartruflunum. 

    Óttinn þarf að vera verulegur í tveimur eða fleiri af þessum aðstæðum, til að um víðáttufælni sé að ræða. Ef þetta væri til dæmis bara óttinn við lokuð rými myndi það kallast innilokunarkennd eða flugfælni og heyra undir sértæka fælni. Eins ef aðeins væri um ótta við flug að ræða. Þá væri það nefnt flugfælni sem einnig tilheyrir sértækri fælni.

    Áætlað er að 1-2% fólks hrjáist af víðáttufælni og er vandinn algengari meðal kvenna. Þetta samsvarar um 6000 manns hérlendis. Misjafnt er hvað veldur víðáttufælni hjá hverjum og einum, en algengustu ástæður þess að fólk þróar með sér víðáttufælni eru áföll af einhvejrum toga, t.d. að hafa orðið vitni að dauðsfalli, að eiga sögu um ofsakvíðaköst, sér í lagi ef fólk hefur fengið slæmt kvíðakast fjarri heimili sínu. Sumir þeirra sem eru með víðáttufælni fá endurtekin ofsakvíðaköst sem þeir hræðast og eru þá líka með ofsakvíða. Að lokum reynsla af því að fá óþægileg einkenni meðal fólks, svo sem niðurgang eða þvagleka.

    Hver er kjarnaóttinn í víðáttufælni?
    Misjafnt er hvað hver og einn óttast sem glímir við víðufælni en það getur meðal annars snúið að viðbrögðum annarra ef eitthvað kemur upp á. Til dæmis að maður muni æla, lyppast niður, líða út af, missa stjórn, virðast skrýtinn og að aðrir ekki koma til aðstoðar, að aðrir safnist fyrir og glápi, að maður verður að athlægi, álitinn geðveikur, neyddur á spítala eða verði viðskila við sína nánustu.

    Afleiðingar víðáttufælni

    Viðáttufælni hefur margvísleg áhrif á líf fólks eins og sjá má hér að neðan. Það fer þó eftir alvarleika vandans, hve mikil áhrifin eru. Víðáttufælni kemur oft niður á félagslífi, þar sem fólk sniðgengur ýmsa atburði, einangrun því erfitt getur orðið að halda tengslum við aðra, togstreitu í samböndum því aðrir geta átt erfitt með að skilja hvers vegna ýmsar aðstæður eru sniðgengnar. Sömuleiðis getur víðáttufælni haft áhrif á starfsgetu, fjárhag og framgöngu í starfi, heilsufara, sér  í lagi ef erfitt er að sinna hreyfingu og læknisþjónustu og komið niður á sjálfstrausti, því það dregur úr fólki að ráða ekki við vissar aðstæður og verða ofurháður öðrum með einföldustu hluti. Í sinni alvarlegust getur fólk orðið ófært um að fara út úr húsi, og oft hlýst þunglyndi og jafnvel misnotkun á vímuefnum af. 

    Hugræn atferlismeðferð við víðáttufælni

    Það má ná góðum tökum á víðáttufælni, sama hvernig hún er tilkomin og óháð alvarleika. Svigrúmið er sérlega fyrir framfarir ef vandinn er mikill og getur gjörbreytt lífinu að sigrast á óttanum. Best er að leita til sálfræðings sem vanur er að meðhöndla vanda af þessum toga. Sú meðferð sem helst er beitt er hugræn atferlismeðferð þar sem markvisst er unnið að því að grípa inn viðhaldandi þætti vandans. Við Kvíðameðferðarstöðina er hægt að sækja meðferð í gegnum fjarfundabúnað, sömuleiðis má fá sálfræðinginn í heimaitjun, þar sem sumir eiga, skiljanlega, erfitt með að yfirgefa heimili sitt vegna vandans í fyrstu stigum meðferðar.